Hennar rödd eru félagasamtök sem starfa með það að markmiði að auka vitund meðal almennings á stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.
Tilgangur félagsins er að stuðla að vitundarvakningu og fræðslu um málefni kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, þar með talið áskoranirnar sem þessi hópur mætir ásamt framlagi þeirra til samfélagsins. Markmið félagsins er að auka skilning og meðvitund í garð kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.
Félagið heldur viðburði líkt og pallborðsumræður og ráðstefnur ásamt því að taka þátt í öðrum verkefnum þar sem markmiðið er að skapa vettvang til að raddir kvenna af erlendum uppruna fái að heyrast í samfélaginu.
Viðburðir hafa verið haldnir árlega frá stofnun félagsins árið 2018.
Konur af erlendum uppruna er sívaxandi hópur á Íslandi sem hefur ekki verið veittur nægur hljómgrunnur í samfélaginu. Mikill fjölbreytileiki ríkir innan hópsins en þrátt fyrir það eru margar sameiginlegar hindranir til staðar.
Þær skipa stóran en ósýnilegan sess í íslensku samfélagi og því er mikilvægt að leita leiða til þess að raddir þeirra heyrist.
Íslenskukunnátta er ein helsta hindrunin þegar kemur að þátttöku í samfélaginu. Tungumálakennsla er ekki nægilega aðgengileg fyrir konur af erlendum uppruna. Námskeiðin geta verið á óhentugum tíma fyrir konur vegna vinnu og umsjá barna.
Hlutfallslega eru fleiri konur af erlendum uppruna sem dvelja hjá Kvennaathvarfinu vegna heimilisofbeldis og dvelja þar í lengri tíma en innlendar konur sem má rekja til skorts á tengslaneti og baklandi hér á landi. Konur af erlendum uppruna teljast jafnframt vera meirihluti þolenda mansals á Íslandi.
Atvinnuleysi er hærra meðal kvenna af erlendum uppruna en meðal innlendra kvenna. Einnig eru konur af erlendum uppruna líklegri en innlendar konur til að vera ofmenntaðar fyrir störfin sem þær sinna.
Skortur á menningarnæmni er viðvarandi vandamál sem konur af erlendum uppruna upplifa innan heilbrigðiskerfisins. Rannsóknir sýna að hindranir líkt og túlkaþjónusta og upplýsingagjöf er ábótavant, sem getur staðið í vegi fyrir því að þær fái fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.
Stofnendur félagasamtakanna Hennar rödd eru Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir.
Innblástur verkefnisins kom frá Letetia B. Jonsson, móður Chanel, en hún er af jamaískum og breskum uppruna og bjó hér á landi fyrir um það bil 10 árum síðan. Letetia tók virkan þátt í samfélagi kvenna af erlendum uppruna á Íslandi og kynntist mörgum frambærilegum konum sem upplifðu sömu hindranir og hún hvað varðar aðlögun að menningu og tungumáli landsins.
Hennar Rödd stendur fyrir fjölbreyttum viðburðum, ráðstefnum og pallborðsumræðum ásamt því að taka þátt í verkefnum sem stuðla að valdeflingu kvenna af erlendum uppruna á Íslandi. Hér má finna það helsta sem er að frétta frá samtökunum.